Augnlinsur í miklu úrvali

Gleraugnabúðin í Mjódd býður augnlinsur í miklu og góðu úrvali frá CooperVision fyrir alla aldurshópa. Við leggjum kapp á að bjóða vandaðar augnlinsur á góðu verði til viðskiptavina okkar. CooperVision er þekkt vörmerki sem reynst hefur afar vel við hvers konar notkun á augnlinsum.

Síðustu ár hafa daglinsur verið að ryðja sér til rúms og eru þær mest seldu linsurnar í dag.  Einnig eru fáanlegar mánaðarlinsur, langtímalinsur, ásamt margskiptum linsum. Augnlinsur eru framleiddar úr mismunandi efnum og síðustu ár hafa silicon linsur orðið meira áberandi.  Þær þykja í mörgum tilfellum þægilegri og hleypa meira súrefni í gegnum sig.
Nauðsynlegt er að leita ráðgjafar og fá ráðleggingar hvaða linsur henta best og hvernig ber að meðhöndla þær.
Augnlinsur í miklu úrvali hjá Gleraugnabúðinni í Mjódd
HVERT SEM ÞÚ ERT AÐ FARA OG HVAÐ SEM ÞÚ ÆTLAR AÐ GERA

Njóttu þæginda og frelsis með réttu linsunum

Nokkur atriði atriði sem gott er að hafa í huga varðandi augnlinsur

Mánaðarlinsur

Hefðbundnar mánaðarlinsur geta verið góður kostur, ef þær eru notaðar á réttan hátt.  Ef vel er að verki staðið skal taka kúrfumál af hornhimnu augans og velja linsur sem passa viðkomandi.  Ef linsurnar eru of þröngar geta þær skert súrefnisflæði til augans, jafnvel án þess að notandinn verði þess var og skapað sýkingarhættu og hættu á augnsjúkdómum síðar meir.  Ávallt skal skipta um linsur mánaðarlega.  Ef linsurnar eru notaðar lengur, setjast prótínagnir og önnur óhreinindi á linsurnar og hamla súrefnisflæði til augans.  Þetta getur haft sömu afleiðingar og fyrr er lýst.  Mánaðarlinsur eru misstórar (diam.).  Því stærri sem þær eru, því þrengra sitja þær á auganu og lausari ef þær eru minni  Radíus (kúptleiki) skiptir máli í þessu samhengi, því kúptari sem þær eru, því þrengri og öfugt.  Sökum þessa er mikilvægt að fara í linsumátun og sjónfræðingur velur linsur sem henta.  Það sem hann hefur í huga við ákvörðun sína, er að táraflæðið sé gott milli linsunnar og augans, þannig að linsan sé hvorki of laus né of þröng. Hefðbundnar linsur eru oftast ódýrasti kosturinn, en þær þurfa alls ekki að vera verri ef allt er gert á réttan hátt og fyllsta öryggis gætt.

Silicon linsur

Silicon linsur hafa rutt sér til rúms á síðustu árum.  Silicon efnið bindur súrefni og þar af leiðandi er margfalt súrefnismagn sem berst til augans, samanborið við aðrar linsur. Óhætt er í sumum tilfellum að sofa með þær og hafa þær í augunum í nokkra daga í senn.  Þær mega sitja frekar þröngt á auganu og ekki eins miklir möguleikar við mátun og í hefðbundnum linsum.  Þó er hægt að velja mismunandi kúptleika og stærðir.  Silicon linsurnar þykja oft betri ef um augnþurrk er að ræða, sérstaklega þegar notandinn ver miklum tíma í þurru umhverfi.  T.a.m. í flugvélum og á stórum vinnustöðum þar sem margar tölvur eru í notkun.  Tölvur taka til sín raka úr umhverfinu og fólk finnur oft fyrir augnþurrki innandyra við svoleiðis aðstæður.  Oft hverfa þessi einkenni um leið og farið er út undir bert loft.

Daglinsur

Daglinsur eru líka kallaðar einnota linsur.  þær eru notaðar í eitt skipti.  Þær sitja líka frekar þröngt á auganu og ekki margir möguleikar við mátun.  Þær eru framleiddar til að henta sem flestum, en kemur fyrir að fólki sé ekki ráðlagt að nota þær.  Sökum þess að þær eru notaðar í eitt skipti, eru þær alltaf hreinar og súrefnisflæðið til augans óhindrað, að því leytinu.

Langtíma linsur

Langtíma linsur eru framleiddar til notkunar frá þremur mánuðum til eins árs.  Nauðsynlegt er að skoða vandlega hvaða linsur henti best til langtíma.  Hægt er velja um mismunandi vatnsmagn og súrefnisflæði í þannig linsum og fást þær í mörgum stærðum og kúptleikum. Þær þykja henta vel ef styrkurinn er orðinn hár og sjónskekkja mikil og sjónfræðingur getur oft leiðrétt sjón með nákvæmari hætti en í öðrum linsum ef, þannig stendur á.

Sjónskekkjulinsur

Sjónskekkjulinsur eru fáanlegar í öllum tegundunum hér að ofan.  Daglinsurnar eru grófastar í leiðréttingu og nákvæmnin er mest í langtíma linsunum.  Oft er það þó þannig að flestar sjónskekkjulinsur leiðrétta mjög vel, en öll frávik leiðréttast best með langtímalinsum.

Réttu augnlinsurnar fyrir þig

Vertu velkominn til okkar í Gleraugnabúðinni í Mjódd og fáðu ráðgjöf um val á réttum augnlinsum fyrir þig.

Þar bjóðum við einnig gleraugnaumgjarðir í fjölbreyttu úrvali, bæði fyrir börn og fullorðna.

Hafa samband

OPNUNARTÍMAR

MÁNUDAGA – FÖSTUDAGA

10:00 ~ 18:00